Undirbúningur fyrir myndatöku
Það eru nokkrir hlutir sem gott er að huga að þegar kemur að því að fara í fjölskyldumyndatöku
Staðsetning
Þegar kemur að því að velja staðsetningu þá þarf fyrst og fremst að huga að því hver er að koma í myndatökuna. Mörg börn eiga erfitt með að koma í myndatöku, þar sem að of háar væntingar eru settar á börnin og ætlast er til að þau sitji kyrr og brosa framan í myndavélina. Ég mæli eindregið með að mynda orkubolta úti í náttúrunni þar sem er hægt að hlaupa um, skoða og hafa gaman. Ef að barnið þitt er rólegt, eða duglegt að dunda sér eða þig einfaldlega langar mikið meira að koma í stúdíó myndatöku, þá auðvitað velur þú stúdíóið. Þriðji valkosturinn er að ég komi heim til ykkar og stilli upp ljósum til að mynda fjölskylduna í ykkar rými. Ég get komið með bakgrunn með mér eða við getum notað veggina, stofuna, sófana eða ykkar uppáhalds rými.
Fatnaður
Ég mæli með því að koma með að minnsta kosti ein föt til skiptanna. Ef að þig langar í stílhreinar og einfaldar myndir þá er vinsælt að koma í hvítum bol og bláum gallabuxum, og allir í stíl. Það er hægt að koma með lopapeysur eða fallegar prjónapeysur fyrir hvern og einn og fara svo í yfir. Margir vilja koma með treyjur merktar uppáhalds íþróttaliðinu sínu til að skipta yfir í. Mikilvægast er að vera í fötum sem að þér líður vel í, og ert ánægð/ánægður með hvernig þú lítur út í þeim.
Þegar teknar eru myndir af mörgum saman, þá myndi ég passa að velja liti sem tóna vel saman og forðast mikil mynstur sem að draga athyglina frá fjölskyldunni yfir á fötin. Það má líka taka með sér uppáhalds bangsa eða dót fyrir litla fingur að leika með á meðan á myndatökunni stendur.
Undirbúningur
Mikilvægt er að útskýra fyrir börnunum hvert þau eru að fara og hvernig myndatakan mun fara fram. Ég hef séð gífurlegan mun á börnum sem að vissu að þau væru að koma í myndatöku og hvers er ætlast til af þeim og á börnum sem að skilja ekki hvað er í gangi og afhverju þau eiga sitja kyrr í hálftíma á risastóru hvítu “blaði”. Auðvitað er skilningur barnanna mismunandi eftir aldri en undirbúningurinn getur munað miklu.
Tímasetning
Gott er að bóka tíma eftir að lítil börn leggja sig og forðast tíma þar sem þið vitið að börnin eru orðin þreytt. Eftir skóla og leiksskóla eru börn oft þreytt og því ekki besti tíminn til að koma í myndatöku. Fyrir útimyndatöku þá er besti tíminn á milli 10-17 yfir sumarið og um hádegi yfir veturinn.

